Spurningar og svör
Er nokkuð vit í að láta slípa gamla parketið, er ekki eins gott að kaupa nýtt?
Nýtt parket kostar 6.000 – 20.000 kr. eða meira pr. m2. lagt og full frá gengið. Þá á eftir að reikna kostnað við að rífa af gamla gólfið og farga því. Slípun á gamla gólfinu kostar alltaf miklu minna. Þar að auki verður gamalt slípað gólf oft jafn fallegt og nýtt.
Parketið er orðið ljótt, það er grátt á köflum.
Þarf ekki að skipta um? Ef að gráminn stafar af því að lakkið er slitið af og óheinindi hafa litað efsta borð viðarins þá hverfur það í langflestum tilfellum við slípun. Ef hins vegar blettirnir stafa af því að vatn hefur komist undir parketið, t.d. við leka, getur þurft að skipta um þann hluta af gólfinu sem er skemmdur. Oftast er hægt að gera gólfið sem nýtt aftur.
Þarf ekki að gera hreint eftir að slípað er?
Oftast nægir að ryksuga veggi eða strjúka með rökum klút. Flestir parketmenn nota vélar sem ryka mjög lítið. Oftar er parketmanninum um að kenna frekar en vélunum ef mikið rykast. Þó geta verið þær aðstæður að ekki verði komist hjá umtalsverðu ryki t.d. slípun á stiga eða þar sem mjög þröngt er og pokarnir rekast í veggina. Ekki er möguleiki á að lofa ryklausri slípun. Sá sem það gerir er vísvitandi að blekkja viðskiptavininn.
Er hægt að breyta um lit á parketinu ?
Já það er auðvelt að slípa lit af parketi ef þess er óskað. Hægt er síðan að olíubera og eða lakka upp á nýtt.
Hvort er betra, olíubera eða lakka?
Lakkað gólf þarf ekki að hugsa um að endurlakka fyrr en eftir u.þ.b. átta til tíu ár á íbúð en mun oftar ef um er að ræða dansgólf eða gólf á verslunum og vinnustöðum. Olíuborið gólf þarf oftast nær að endurolíubera á hálfs til tveggja ára fresti. Olíuborin gólf henta illa þar sem berst inn mikil bleyta eða oft þarf að þvo.
Ef ég læt olíubera parketið get ég þá breytt til seinna og látið slípa og lakka?
Já, flestar hefðbundnar parketolíur er hægt að slípa af og lakka í staðinn. Einnig er hægt að lakka yfir flestar parketolíur þegar þær hafa full harðnað.
Hve oft er hægt að slípa parket?
Flestar gerðir af viðargólfum frá okkur eru með 4 mm. spón, sumar meira. Það er oftast hægt að slípa tvisvar til þrisvar. Gegnheilt parket er oftast með 6 – 10 mm slitfleti. Það er í flestum tilfellum hægt að slípa fjórum til sex sinnum.
Eru vatnslökk (leysiefnasnauð) jafngóð hefðbundnum þynnislökkum?
Já í flestum tilfellum eru betri gerðir af vatnslökkum jafngóð og þynnislökk. Þau eru oftast mattari og að áliti flestra áferðarfallegri. Slitþolið á bestu gerðum vatnslakka (100% poly-ureþan) er jafngott eða betra en þynnislakka. Ódýrari gerðir af þessum lökkum hafa oft miklu minna slitþol. Athugaðu áður en þú tekur tilboði í parketviðhald að notað sé lakk sem hæfir gólfinu sem á að lakka. Oft er betra að borga aðeins meira og vera viss um að fá besta lakk sem völ er á.
Er gegnheilt parket betra en spónlagt?
Hvor tveggja hefur sína kosti. Venjulegt spónlagt parket er fljótlegt að leggja, endist vel og þarf í flestum tilfellum ekki að lakka eftir lögn. Gegnheilt parket er upprunalegt, samskonar og lagt hefur verið á allar meiriháttar byggingar í margar aldir. Úreldist aldrei, fer aldrei úr tísku. Þú getur valið úr ótal viðartegundum, yfirborðsmeðhöndlun og munstum.
Hvaða spurninga er rétt að spyrja áður samið er um parketvinnu?
Fáðu umsögn um parketverktakann frá einhverjum sem hefur notið þjónustu hans áður. Getur þú óhrædd/ur skilið hann eftir eftirlitslausan á heimili eða fyrirtæki þínu. Hvers konar lökk/olíur notar parketmaðurinn. Getur hann lagt fram einhver plögg sem sýna í hvaða styrkleikaflokki lakkið/olían sem hann notar er. Notar hann það magn eða umferðafjölda sem framleiðandinn ráðleggur. Ef þú ætlar að taka lægsta tilboði í verkið vertu þá alveg viss um að þú sért ekki að kaupa köttinn í sekknum.
Við tryggjum gæðaparket á lægra verði
